Til baka
14 janúar 2025
Náttúruverndarstofnun: Starfsemi og þjónusta vítt og breitt um landið

Nú þegar Náttúruverndarstofnun hefur tekið til starfa viljum við kynna starfsemi hennar sem er vítt og breitt um landið.
Náttúruverndarstofnun rekur átta gestastofur um allt land. Fimm þeirra eru staðsettar í Vatnajökulsþjóðgarði, tvær í Snæfellsjökulsþjóðgarði og ein á Ísafirði. Gestastofurnar þjóna sem hlið inn á friðlýst svæði og þjóðgarða og veita gestum margvíslega þjónustu og upplýsingar. Einnig eru landvörslustöðvar og skrifstofur á gestastofunum.
Auk gestastofanna eru landvörslustöðvar á láglendi og hálendi víðs vegar um landið. Starfsemi þeirra er háð árstíðum en landvarsla gegnir lykilhlutverki í að tryggja verndun náttúrunnar og góða upplifun gesta á friðlýstum svæðum.
Náttúruverndarstofnun annast veiðistjórnun villtra fugla og spendýra. Í því fellst áætlanagerð, alþjóðlegt samstarf og þjónusta við veiðimenn.
Höfuðstöðvar Náttúruverndarstofnunar eru á Hvolsvelli en starfsfólk stofnunarinnar vinnur einnig á skrifstofum víðs vegar um landið. Flest störf eru á landsbyggðinni en yfir 100 manns starfa hjá stofnuninni að jafnaði. Á sumrin fjölgar í hópnum með landvörðum og þjónustufulltrúum sem bætast við til að mæta auknum gestafjölda.
Nýlega var heimasíða Náttúruverndarstofnunar, www.nattura.is, opnuð og verður hún þróuð áfram á næstu misserum. Þar birtast fréttir og tilkynningar, auk upplýsinga um starfsemi stofnunarinnar. Þá má einnig finna frekari upplýsingar á heimasíðum þjóðgarðanna www.vjp.is og www.snaefellsjokull.is, sem og á nýrri Facebook-síðu Náttúruverndarstofnunar. Almennt netfang er nattura@nattura.is.
Við hlökkum til að þjónusta þá sem njóta stórbrotinnar náttúru Íslands og minnum á mikilvægi þess að ganga vel um náttúruna.