Til baka
15 apríl 2025
Lokun hellis við Jarðbaðshóla framlengd

Tekin hefur verið ákvörðun um að framlengja lokun hellis sem fannst við Jarðbaðshóla í Mývatnssveit vorið 2023. Hellirinn verður lokaður í sex mánuði til viðbótar eða til 19. október 2025 og tekur framlengingin gildi 19. apríl næstkomandi. Lokunin er samkvæmt 25. gr. a laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.
Vinna við friðlýsingu hellisins er komin langt á veg. Þann 17. febrúar síðasliðin auglýsti Náttúruverndarstofnun áform um friðlýsingu hellisins og lauk athugasemdafresti þann 19. mars. Nú er unnið að friðlýsingarskilmálum fyrir hellinn en þó er ljóst að þörf er lengri tíma en til 19. apríl til að kára þá vinnu.
Náttúruverndarstofnun telur nauðsynlegt að hellirinn verði áfram lokaður meðan unnið er að friðlýsingu hans til að tryggja verndun útfellinga í hellinum til frambúðar. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur nú staðfest ákvörðun stofnunarinnar en samráð var haft við hagsmunaaðila þegar ljóst var að þörf væri á framlengingu lokunarinnar.
Nánari upplýsingar um hellinn má finna hér.