Bækur vekja athygli barna mjög snemma. Fyrsta bókin getur verið myndaalbúm með myndum af mömmu, pabba og systkinunum eða harðspjaldabók með einföldum myndum af húsdýrunum. Þessar bækur geta verið tuggðar og plastbækur sognar. Plastmýkingarefni svokölluð þalöt eru vandamál í leikföngum, sérstaklega í mjúku plasti og eru talin sérstaklega skaðleg heilsu barna þar sem þau eru í mörgum tilfellum lík hormónum í líkamanum og hafa því hormónatruflandi áhrif.

Flestar bækur eru þó án slíkra efna og pappi og pappír ekki stór áhættuþáttur. Bækur skipa stóran sess ævina út og börn „lesa“ bækur löngu áður en þau læra að lesa, þau lesa í myndirnar og spá í stafina. Það er mikilvægt að kenna börnunum að passa bækurnar sínar og ganga frá þeim í bókahilluna eftir að þær hafa verið notaðar. Val bóka fyrir hvert og eitt barn hlítur síðan að stjórnast af áhugasviði hvers og eins þó að klassískar barnabókmenntir geti auðveldlega gengið systkyni fram af systkyni og kynslóð fram af kynslóð.

Frá umhverfissjónarmiði fer minni pappír í að prenta fáar bækur sem eru marglesnar í stað margra bóka sem eru lesnar af fáum. Þegar barnabækur hafa gengið milli manna og enginn í fjölskyldunni eða vinahópnum þarf lengur á þeim að halda má gefa þær til fornsölu eða til bókasafns í næsta skóla eða leikskóla. Þegar bókin er alveg úr sér gengin má koma henni i pappírsgám á næstu endurvinnslustöð en þangað fer hún í endurvinnslu og verður kannski einhverntíma að klósettpappír.

Birt:
28. september 2013
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Barnabækur“, Náttúran.is: 28. september 2013 URL: http://nattura.is/d/2007/06/25/barnabkur/ [Skoðað:19. júní 2018]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 25. júní 2007
breytt: 13. júní 2014

Skilaboð: